Hoppa yfir valmynd
24.02.2024 11:29 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Varnarmál í brennidepli

Tvö ár eru liðin í dag frá því að við fylgdumst agndofa með því þegar Rússar hófu ólöglega innrás sína inn í frjálsa og fullvalda Úkraínu. Stríð var hafið í Evrópu. Daglegu lífi Úkraínumanna, þessarar fjölmennu Evrópuþjóðar, var á einni nóttu snúið á hvolf, með þeim afleiðingum að milljónir hafa neyðst til að rífa sig upp með rótum og flýja heimili sín vegna árása Rússlandshers.

Þó að upphaflegar áætlanir Rússa um að hertaka alla Úkraínu á nokkrum dögum hafi blessunarlega engan veginn gengið eftir hefur þeim tekist að hertaka um 18% af landsvæði Úkraínu. Úkraínumönnum tókst að hrekja Rússa á brott frá stórum landsvæðum framan af en á undanförnum mánuðum hefur víglínan lítið hreyfst í hörðum átökum, þar sem mannfall hefur verið mikið.

Áhrif innrásarinnar hafa hríslast út um víða veröld með neikvæðum efnahagsáhrifum og varpað ljósi á andvaraleysi í varnarmálum Evrópuríkja. Veruleiki í öryggis- og varnarmálum gjörbreyttist á svipstundu og í fyrsta sinn í áratugi var málaflokkurinn aftur kominn á dagskrá í þjóðfélagsumræðunni. Þannig hafa ríki Evrópu stóraukið samstarf og framlög til varnarmála og aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins hefur fjölgað með inngöngu Finna og inngönguferli Svía sem er á lokametrunum en þau skref teljast til sögulegra stefnubreytinga í löndunum tveimur. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í öryggis- og varnarmálum Íslendinga hafa verið farsælar og staðist tímans tönn, má þar nefnda stofnaðild okkar að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og tvíhliða varnarsamninginn við Bandaríkin árið 1951.

Ísland hefur tekið virkan þátt í samhæfðum aðgerðum vestrænna ríkja til að styðja við Úkraínu. Tekið hefur verið á móti öllum þeim Úkraínumönnum sem hingað hafa leitað í skjól, ásamt því að margþættur efnahagslegur og pólitískur stuðningur hefur verið veittur svo dæmi séu tekin. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði ekki rof í stuðningi Vesturlanda við Úkraínu og sérstaklega brýnt að fundnar verði leiðir til þess að tryggja öfluga hernaðaraðstoð til Úkraínumanna. Þar eru meðal annars bundnar vonir við að sátt náist milli Repúblikana og Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um 60 milljarða dala hernaðaraðstoð við Úkraínu.

Langtímahugsun með margháttuðum stuðningi við Úkraínu skiptir máli. Sagan kennir okkur að ef einræðisherrar verða ekki stöðvaðir, halda þeir yfirgangi sínum ótrauðir áfram. Í amstri hversdagsins vill það kannski gleymast að sú þjóðfélagsgerð sem við og þjóðirnar í kringum okkur þekkjum er ekki sjálfsögð. Tugmilljónir manna létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni í baráttunni fyrir því frelsi, lýðræði og mannréttindum sem við búum við í dag. Innrásin í Úkraínu er grimmileg áminning um að þessi gildi eiga undir högg að sækja í heiminum. Það er óheillaþróun sem sporna verður við.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum